Hvaða litir eru notaðir í samúðarvendi og af hverju?

Þessi Blómstrufróðleikur gefur áhugaverða innsýn inn í táknmynd og merkingar blómalitanna, sérstaklega í gamla daga, en við erum þeirrar skoðunar að gefa eigi það sem manni sjálfum þykir fallegast! Er það ekki langskemmtilegast! 🌸 🌼 🌈

Litir blóma geta táknað ýmislegt. Á viktoríutímabilinu var mikið spáð og spekúlerað í litum blóma og hvað þeir táknuðu. Viktoríutímabilið var frá árinu 1837 til ársins 1901 en á þeim tíma réð Viktoría drottning ríkjum í Bretlandi og blóma táknfræði var mikið áhugamál hennar. Á þessum tíma var hin fúlasta alvara með merkingu blómalita og litirnir settu algjörlega tóninn og meininguna í gjafirnar. Nú til dags er þetta meira haft til gamans en meiningin og þekkingin er þó alls ekki glötuð og er enn í dag notast við þessi fræði.

 

Appelsínugul blóm tákna tilhlökkun. Sem dæmi, ef þú ert boðin/n/ð í matarboð eða annað heimboð, er það talið hugulsamt samkvæmt "Viktoríufræðunum" að senda fallegan vönd af appelsínugulum blómum heim til gestgjafa deginum áður en boðið er með kveðju. Í kveðjunni getur t.d. staðið "Takk fyrir boðið, hlakka til að koma". Meiningin er þá sú að mæta ekki með blóm sem ekki passa við borðskreytingar í boðið sjálft. Voðalega formlegt, en gaman samt að vita.

 

Græn blóm voru á viktoríutímabilinu send á spítala til veikra sem lágu inni. Grænu blómin áttu að ýta undir bata en einnig voru græn blóm oft send til kvenna sem ósk um skjótan bata eftir barnsburð en grænn litur blóma táknar einnig nýtt upphaf. Það er ekki endilega til heimsins mesta úrval af grænum blómum og þó, það er úr einhverju að velja. Sem dæmi er til mikið af grænum berjum og svo höfum við í Blómstru oft haft grænar orkideur í Blómstruvöndunum sem kemur mjög vel út. Á viktoríutímabilinu var ekki mikið um pottaplöntur heima hjá fólki og líklega hafa græn blóm lífgað þó nokkuð upp á ef pottaplöntur eru ekki venjan. 


Gulur litur blóma táknar hamingju. Á þeim tíma þegar fólk var yfir sig hugfangið af merkingu blómalita var gulur yfirleitt notaður í minni veislum eða teboðum eða eitthvað slíkt. Alltaf við tilefni sem áttu að vera létt og skemmtileg. Liturinn var óspart notaður í afmælum. Því hvað er nú skemmtilegra en eitt gott afmæli.


Bleikur táknar sakleysi. Ég er viss um að enginn hefði getað giskað á það. Bleik blóm voru því eitthvað sem þú gafst einhverjum sem þú elskar á órómantískan hátt. Oftast einhverjum sem er yngri en þú. Til dæmis börnin þín eða börn systkina þinna. Jafnvel undirmenn þínir. Bleikur var ekki endilega tengdur við kvenfólk á þessum tíma. Sú hefð að hafa stelpur í bleiku og stráka í bláu kom til mun seinna. Sú hugmynd var upprunalega til þess að merkja börn á spítalanum eftir kyni og er ekki svo gömul, um það bil 70-80 ára. Gott að við erum aftur að fara úr þesari klysju því allir litir tilheyra öllum, ekki satt!


Gulllituð blóm eru nú ekki ýkja mörg í úrvali og því er áhugavert að gull fái sinn eigin flokk en..  það er sérstaklega ein tegund af blómi sem var á þessum tíma talin vera gulllituð og það er marigold eða klæðisblóm. Blómið er reyndar appelsínugult en annars mjög líkt einblóma nellikku. Þetta “gulllitaða” blóm táknaði sorg, missi og söknuð. Það var algengt að fólk á þessum tíma mætti með gylta blómanælu í jarðarfarir. Marigold blómið var oft gefið ef einhver dó eða ef eitthvað misheppnaðist eða fór úrskeiðis. Blómið er líka tengt við dramatíska sögu. Sagt er að William Shakespeare hafi oft sést með klæðisblóm og að þetta hafi verið uppáhalds blómið hans. Líklega er það samt eitthvað sem Viktoría drottning tók sjálf upp á að bera út enda var þessi blómafræði mikið áhugamál hjá henni en William Shakespeare dó meira en 200 árum fyrir Viktoríutímabilið. Nútíma vísindi og fornleifarfræði hafa ekki fundið neinar sérstakar heimildir sem styðja þessa Shakespeare klæðisblóma kenningu hennar Viktoríu okkar. 


Brún blóm tákna skilnað. Þá meina ég bæði hjónaskilnað en einnig vinaskilnað. Þetta þarf þó ekki alltaf að tákna skilnað í illu. Því af hverju ættirðu svo sem að gefa einhverjum blóm sem þér líkar illa við. Þetta er frekar tákn um að skilja í góðu og að viðkomandi verði saknað og hann eða hún skuli ekki vera feiminn við að hafa samband aftur í framtíðinni. Þegar talað er um brún blóm er ekki verið að meina trjágreinar eða stökk og ónýt blóm. Það er verið að meina eitthvað eins og koparlitað eða einhvers konar málmlituð blóm eða jafnvel vínrauð blóm.


Rauð blóm tákna að sjálfsögðu rómantík. Margir gefa ástinni sinni rauð blóm til þess að gleðja og sýna ást í verki og halda upp á sambandsafmæli með því að gefa rauð blóm. Það er líka hægt að játa ást sína með rauðum blómum. Það er að segja taka ástarsambandið á næsta skref með rauðum blómum. Í gamla daga voru rauð blóm eitthvað sem maður ætti bara að fá frá sínu heittelskaða.


Svört blóm voru á tímum Viktoríu drottningar ekki til. Það var þó skrifað svolítið um svartar rósir og þær þekktust úr bókum á þeim tíma. Það fóru víst líka sögusagnir um einn rósarunna í frönskum garði sem hafði  svartar rósir. Svört rós táknaði svartagaldur og allt sem var ókristið. Á þessum tíma var fólk mikið inn í meiningu blómategunda og blómalita og hvaða merkingu þetta allt saman hafði. Ef maður vildi senda svartagaldurs meiningar til fólks þá sendi það yfirleitt mynd af svartri rós. Með nútíma tækni er hægt að framleiða svartar rósir og þær eru hvað vinsælastar í kringum hrekkjavöku. Við í Blómstru höfum aldrei bryddað upp á svörtum blómum í vöndunum okkar og erum hreint ekki viss um að það myndi slá í gegn 😜


Fjólublá blóm voru á viktoríutímanum ill fáanleg þar sem erfitt var að lita blóm fjólublá. Í dag er þó til heill hellingur af fjólubláum blómum og þessi litur finnst einnig í náttúrunni. En "í denn" gekk ekki vel að lita föt og aðra hluti fjólubláa. Það var hægt að ná fram fjólubláa litnum en það tók langan tíma og kostnaði mikinn pening. Þess vegna táknaði fjólublá blóm Metnað og á sama tíma var þetta stöðutákn. Maður lætur hæst settasta æðsta strumpinn hafa fjólubláu blómin.


Hvít blóm voru tákn um hreinleika og voru því andstæða svörtu blómanna. Á viktoríutímanum í Bretlandi var talað um fjóra mikilvægustu dagana í lífi hvers og eins sem skírn, ferming, brúðkaup og jarðarför. Við alla þessa fjóra daga var mjög viðeigandi að mæta með hvít blóm og sú hefð hefur í raun haldið og tíðkast enn í dag.


Blá blóm tákna traust. Þegar fólk las hvað mest í táknmynd og merkingu litanna á blómum þá gat fólk verið nokkuð öruggt með að gefa blá blóm uppá að það ekki væri of mikið lesið í þau. Sérstaklega voru þau notuð til að gefa eiginkonum vina sinna til að sýna virðingu og traust og alls ekki ást eða rómantík eða neitt slíkt.

Þessi Blómstrufróðleikur gefur áhugaverða innsýn inn í táknmynd og merkingar blómalitanna, sérstaklega í gamla daga, en við erum þeirrar skoðunar að gefa eigi það sem manni sjálfum þykir fallegast! Er það ekki langskemmtilegast! 🌸 🌼 🌈